Borðsálmur

Borðsálmur

Það er svo margt, ef að er gáð,
sem um er þörf að ræða;
ég held það væri heillaráð
að hætta nú að snæða.

Heyrið þið snáða,
hvað er nú til ráða?
það mun best að bíða
og hlýða.

Á einum stað býr þrifin þjóð
með þvegið hár og skjanna,
við húsbændurna holl og góð
sem hundrað dæmi sanna

Hvað er að tarna?
hvað sagðirðu þarna?
Mættum við fá meira
að heyra.

Á einum stað býr einnig fólk
sem alltaf vantar brýni;
það lifir þar á mysu’ og mjólk,
en mest á brennivíni.

Æ, hvaða skrambi!
ætli’ þeir standi’ á þambi?
Mættum við fá meira
að heyra.

Þar hefir verið sofið sætt
en sungið nokkru miður,
og ullin fremur illa tætt;
en allra besta fiður.

Ætli’ það sé undur
þótt á þá renni blundur!
Mættum við fá meira
að heyra.

Þar eru blessuð börnin frönsk
með borðalagða húfu,
og yfirvöldin illa dönsk
á annarri hvörri þúfu.

Hættu nú, herra!
Hér mun koma verra
sem þér er betra’ að þegja’ um
en segja’ um.