Fróðleikur um hópinn

Snemma á 8. áratug síðustu aldar starfaði þjóðdansahópur á Hvanneyri. Á þeim grunni byggðist síðar Danshópurinn Sporið, sem starfað hefur af miklum krafti síðan árið 1995. Þess má geta að á Hvanneyri eiga þjóðdansar sér jafnvel enn lengri sögu því Svava Þórhallsdóttir, skólastjórafrú kenndi þar þjóðdansa þegar á fyrri hluta 20. aldar.

Sporið sýnir íslenska þjóðdansa 20-30 sinnum á ári og má því segja að starfsemin sé í blóma. Í gegnum tíðina hefur einnig verið hugað að því að taka upp dansa og haustið 2007 var dans hópsins tekinn upp í Árbæjarsafni fyrir tilstuðlan Gunnsteins Ólafssonar vegna Þjóðlagasetursins á Siglufirði, en þar eru upptökurnar m.a. notaðar til kynningar á þjóðlagahátíðinni auk þess sem þær eru seldar til ferðamanna í formi diska undir heitinu Raddir. Á upptökunum eru rúmlega tuttugu dansar, en í allt hefur hópurinn á efnisskrá sinni um þrjátíu dansa og bætir einhverju nýju við á hverju ári. Sem dæmi um þá dansa sem hópurinn hefur mikið sýnt í gegn um árin eru eftirtaldir: dans við kvæði Gríms Thomsen Á Sprengisandi, bæði með skottísspori og hringbroti, Dýravísur með vikivakaspori, Hringbrot við Grýlukvæði og Vefarinn, sem er einn af elstu dönsum sem varðveist hafa á Íslandi. Þar er líkt eftir því hvernig vefnaður í kljásteinsvefstól fór fram og er sá dans afar flókinn að gerð. Hann dansa helst að lágmarki 12 manns til að „vefnaðurinn“ njóti sín sem best. Að öðrum dönsum ólöstuðum hefur þessi dans vakið einna mest viðbrögð áhorfenda sem hafa klappað dönsurunum lof í lófa að lokinni sýningu.  Í Vefaranum er sungið svo:

Nú vefum við mjúka og dýrindis dúka
;Vefum mjúka, dýra dúka
rennum skyttunni í skil.;

Nú rekjum við þræði í ró og í næði
;Rekjum þræði í ró og næði
kljáum vef okkar vel.;

Nú skerpum við skilin og brúum svo bilin,
;Skerpum skilin, brúum bilin
rennum skyttunni í skil.;

Nú vefum við mjúka og dýrindis dúka
;Vefum mjúka, dýra dúka
rennum skyttunni í skil.;

Og þræðirnir slitna og spólurnar sprikla
;Þræðir slitna, spólur sprikla
bætum vef okkar vel.;

Nú vef okkar sláum og vígindin fáum
;Vefinn sláum, vígindin fáum
rennum skyttunni í skil.;

En hvað er að tarna, hví stendurðu þarna
;Hvað er að tarna, hví stendurðu þarna
eins og þvara í pott.;

Og sjáum nú rifinn, svo þrekinn og þrifinn
;Sjáum rifinn, þrekinn þrifinn
víst er voð okkar löng.;

Nú reynum við vefinn og styttum svo stefin
;Reynum vefinn, styttum stefin
tökum traustlega á.;

Í danshópnum hafa verið 13 -15 danspör auk harmonikkuleikara og söngvara, yfirleitt um 30 manns alls. Margir þeirra eru búsettir í Borgarfirði og nágrenni, en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn heldur reglubundnar æfingar á sunnudagskvöldum frá því í janúar og fram í maí ár hvert og hefur undanfarin ár verið æft á Akranesi og í Innri Akraneshreppi, en á upphafsárum hópsins var æft í gamla íþróttahúsinu á Hvanneyri, sem byggt var 1911. Fyrir danshópnum fer þriggja manna stjórn en formaður og aðal forkólfur frá upphafi hefur verið Hafdís Rut Pétursdóttir.

Megin verkefni hópsins er að koma íslenskum þjóðdönsum á framfæri, bæði innan lands og utan. Sýningar eru yfirleitt á bilinu 15 – 30 á ári eftitr aðstæðum og langflestar á sumrin. Mikið er sýnt fyrir erlenda ferðamenn en einnig talsvert fyrir Íslendinga. Hópurinn hefur sýnt dansa við fjölbreyttar aðstæður svo sem undir beru lofti á hátíðum, í skemmtiferðaskipum, brúðkaupsveislum og jafnvel uppi á jökli sem hluti af kynningu fyrir ferðaskrifstofur. Danssýningar á þjóðhátíðardaginn eru alltaf mjög viðeigandi og hópurinn hefur einnig gert sér far um að sýna reglulega fyrir eldri borgara. Sérstakar ferðir hafa verið farnar um landið í þessum tilgangi. Hópurinn hefur notið ýmissa viðurkenninga fyrir störf sín.

Auk sýninga hér heima hefur hópurinn farið utan í sýningarferðir og var sú fyrsta farin árið 1999. Farið hefur verið til eftirtalinna landa: Kína, Kanada, Bandaríkjanna, Frakklands, Austurríkis, Tékklands, Ungverjalands, Ítalíu og Færeyja. Hópurinn hefur við þessi tækifæri verið í samvinnu við ýmsa listamenn, svo sem Rósu Jóhannesdóttur, Sigurð Rúnar Jónsson, Báru Grímsdóttur,  Kristján Kristjánsson (KK) og Kristínu Á. Ólafsdóttur.  Í ferðum sínum erlendis hefur hópurinn notið gestrisni landans eða erlendra danshópa og gjarnan eru þá haldnar sameiginlegar dansæfingar. Sem dæmi um þetta má nefna danskvöld með austurrískum danshópi í Vínarborg, kanadískum hópi í Winnipeg og kvöld með færeyskum hringdönsum í Þórshöfn. Komið hefur einnig fyrir að fulltrúar viðkomandi hópa hafi komið til Íslands og hefur Sporið þá tekið á móti því fólki og átt með því góðar stundir. Sem dæmi um sýningarferðir má nefna að hópurinn fór til þriggja borga í Kanada haustið 2016 og vorið 2018 sýndi hann í Norfolk og Washington í Bandaríkjunum. Vorið 2019 var farið á þjóðdansamót á Norður-Ítalíu og einnig sýnt í Cannes Frakklandi. Ferðalög hafa síðan verið í bið um sinn vegna heimsfaraldurs.

Aðal kennari Sporsins í upphafi var Helga Þórarinsdóttir hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, en einnig hafa Ásrún Kristjánsdóttir og Hafdís Pétursdóttir félagar í Sporinu þjálfað á æfingum og Kolfinna Sigurvinsdóttir hefur einnig leiðbeint hópnum, s.s.vegna upptökuverkefnisins haustið 2007. Sporið hefur við ýmis tækifæri notið góðrar aðstoðar Snorra Hjálmarssonar söngvara, sem m.a. söng einsöng í söngdönsum á upptökum með hópnum.

Danshópurinn hefur gert sér far um að miðla þekkingu um dansana á sýningum, t.d. með því að kynna hvern dans stuttlega fyrir áhorfendum. Kynningarnar hafa verið fluttar á ýmsum tungumálum eftir aðstæðum, svo sem ensku, dönsku/norsku/sænsku og þýsku. Ef um er að ræða áhorfendur sem tala mjög framandi tungumál er enskan oftast látin duga og kynningar þá frekar hafðar í lágmarki. Sem dæmi um þetta eru sýningar fyrir Japani, Grænlendinga og Finna. Ef aðstæður leyfa er fólki gjarnan boðið í gamlan íslenskan mars með hópnum í lok dagskrár og gerir slíkt alltaf mikla lukku meðal áhorfenda.

Hópurinn kemur alltaf fram í íslenskum upphlut og hátíðarbúningi íslenskra karlmanna, en báðir eru þessir búningar frá 20. öld þótt breitt bil sé á milli í tíma. Þannig undirstrika félagar í Sporinu þá afstöðu sína að margir 19. og 20. aldar dansar hafi áunnið sér sterka hefð í landinu og geti því flokkast sem þjóðdansar. Það eru því ekki einungis vikivakar og gamlir söngdansar sem hópurinn vinnur með, heldur líka ýmsar gerðir af gömlu dönsunum. Sem dæmi um slíkt má nefna syrpur af rælum og skottísum sem hópurinn hefur sýnt. Einnig hefur verið vinsælt að sýna söngdans eftir Sigríði Valgeirsdóttur við hluta af þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á sænsku ljóði við lag Lamberts: „Laugardagsköldið á Gili“. Þar staðfærir Magnús textann og heimfærir hann upp á Borgarfjörðinn, enda var hann frá Reykjum í Lundarreykjadal. Hún Dóra á Grund í Skorradal var í þá tíð forkunnarfögur og hún María litla bjó á Varmalæk. Það var eitt laugardagskvöld að Pétur á Rauðsgili og Bjössi frá Móabarði í Reykholtsdal slógu upp balli. Dóri í Deildartungu í Reykholtsdal, strákur frá Skarði í Lundarreykjadal og mjólkurbílsstjóri úr Borgarnesi mættu ásamt stórlyndu Siggu og einþykku Stínu og fleira fólki. Það er talið mjög líklegt að Hofs-Láki æringi austan af landi sé Eiríkur í Bakkakoti í Skorradal en hann kom frá Vopnafirði og spilaði á harmonikku  fram yfir nírætt. Hér eru fyrstu tvö erindi þýðingar Magnúsar birt til glöggvunar:

Það var kátt hérna’ um laugardagskvöldið á Gili,
það kvað við öll sveitin af dansi og spili,
það var hó! Það var hopp! Það var hæ!
Hann Hofs-Láki, æringi austan af landi,
þar úti í túnfæti dragspilið þandi,
hæ, dúddelí, dúddelí, dæ!

Þar var Dóra á Grund, hún er forkunnar fögur
og fín, en af efnunum ganga’ ekki sögur,
hún er glettin og spaugsöm og spræk.
Þar var einþykka duttlungastelpan hún Stína
og hún stórlynda Sigga og Ása og Lína
og hún María litla á Læk.

Söngurinn á sér ríka hefð í íslenskri dansmenningu, enda hafa ljóð og aðrar bókmenntir ávallt skipað sérstakan sess meðal þjóðarinnar. Af þessum ástæðum hefur Sporið oft leitað út fyrir sínar raðir og bætt við söngvurum á sýningum og er þá leitað til vina og vandamanna með hæfileika á þessu sviði. Mikilvægi textans sést í gömlu dönsunum þar sem sögð er saga svipað og gert er í færeyskum söngdönsum, en þar í landi hefur þessi menningararfur náð að varðveitast með þjóðinni og er þar jafnvel að finna hina upprunalegu þjóðdansa sem íslenski vikivakinn er leifar af. Sem dæmi um íslenska sagnadansa má nefnda Hoffinsleik, Gunnbjarnarkvæði og Systrakvæði, þar sem ástir og örlög eru viðfangsefni textans svipað og í kvæðinu um Ólaf Liljurós. Í Systrakvæði er að finna einkar fagurt gamalt viðlag: „…nú fölnar fögur fold … lét mér blítt, veröldin … langt er síðan mitt var yndi lagt niður í mold.“

Það er ekki algengt í dag að fólk geti notið þess að sjá og upplifa íslenska þjóðdansa. Þegar þetta er skrifað má telja þá hópa á fingrum annarrar handar, sem eru með virka starfsemi á þessu sviði. Hún hlýtur þó að teljast einkar mikilvæg þar sem dansarnir hafa ekki náð að vera lifandi með þjóðinni í seinni tíð og eru því í mikilli hættu á að gleymast. Danshópurinn Sporið leggur því með starfi sínu mikilvægt lóð á vogarskálina við kynningu og varðveislu þessa þjóðararfs.

Byggt á grein sem birt var í héraðsritinu Borgfirðingabók árg. 2009, hér birt með góðfúslegu leyfi Sögufélags Borgarfjarðar, útgefanda ritsins. Uppfært af höfundi, Guðrúnu Jónsdóttur, árið 2023.