Grýlukvæði

Grýlukvæði

Eg þekki Grýlu
og eg hef hana séð
hún er sig svo ófríð
og illileg með.

Hún er sig svo ófríð
að höfuð ber hún þrjú,
þó er ekkert minna
en á miðaldra kú.

Þó er ekkert minna
og það segja menn,
að hún hafi augnaráðin
í hverju þrenn.

Að hún hafi augnaráðin
eldsglóðum lík,
kinnabeinin kolgrá
og kjaptinn eins og tík.

Kinnabeinin kolgrá
og hrútsnefið hátt,
það er í átján hlykkjunum
þrútið og blátt.

Það er í átján hlykkjunum,
og hárstrýið hart,
ofan fyrir kjaptinn tekur
kleprótt og svart.

Ofan fyrir höku taka
tennurnar tvær,
eyrun hanga sex saman
sítt ofan á lær.

Eyrun hanga sex saman
sauðgrá á lit,
hökuskeggið hæruskotið
heilfult af nit.

Erindin eru fleiri. Kvæðið er eftir Stefán Ólafsson í Vallanesi  (1619–1688). Hann var sonur séra Ólafs Einarssonar skálds í Kirkjubæ og konu hans, Kristínar Stefánsdóttur frá Odda. Eftir nám í Skálholti nam Stefán við Hafnarháskóla og vann um tíma við þýðingar fyrir Ole Worm. Stefán var prestur í Vallanesi frá 1649 til æviloka og prófastur í Múlaþingi á sínum efri dögum. Hann var talinn eitt höfuðskálda 17. aldar. Veraldlegur skáldskapur Stefáns er talsverður að vöxtum. Hann orti talsvert af lausavísum og var með fyrstu skáldum til að yrkja eiginlegar hestavísur. (Heimild: Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár IV, 328–329).