Laugardagskvöldið á Gili

Laugardagskvöldið á Gili

Það var kátt hérna´ um laugardagskvöldið á Gili
það kvað við öll sveitin af dansi og spili
það var hó, það var hopp, það var hæ.
Hann Hofs-Láki æringi austan af landi
þar úti í túnfæti dragspilið þandi.
Hæ dúdelí, dúdelí dæ!

Þar var Dóra á Grund hún er forkunnar fögur
og fín, en af efnunum ganga´ ekki sögur.
hún er glettin og spaugsöm og spræk.
Þar var einþykka duttlungastelpan, hún Stína,
stórlynda Sigga og Ása og Lína
og hún María litla á Læk.

Þar var Pétur á Gili og Gústi á Bakka,
tveir góðir, sem þora að láta það flakka
og að stíga við stúlkurnar spor.
Þar var Dóri í Tungu og Bjössi á Barði
bílstjóri úr Nesinu ´og strákur frá Skarði
og hann Laugi, sem var þar í vor.

Og þau dönsuðu öll þarna í dynjandi galsa
og þau dönsuðu polka og ræla og valsa,
svo í steinum og stígvélum small.
Og flétturnar skiptust og síðpilsin sviptust
svunturnar kipptust og faldarnir lyftust
meðan danslagið dunaði´ og svall.

Inni í döggvotu kjarri var hvíslað og hvískrað
og hlegið og beðið og ískrað og pískrað,
meðan hálfgagnsætt húmið féll á.
Þar var hlaupið og velst yfir stokka og steina
stunið og hjúfrað í laufskjóli greina.
Sértu´ að hugsa´ um mig hafðu mig þá!